Færsluflokkur: Lífstíll

Hlauptu Brynjar, hlauptu

Ég fór út að hlaupa um daginn í fyrsta skipti í... ja í fyrsta skipti (ef frá eru talin grunn- og menntaskólaárin þegar maður var neyddur til að hlaupa utandyra um einu sinni í viku). Er reyndar búinn að ætla mér lengi að drífa mig í skokkið en hef alltaf talið sjálfum mér trú um að mér þætti það leiðinlegt og að ég væri of slæmur í hnjánum (enda kominn á fertugsaldurinn). Ég hafði ekki að öllu leyti rétt fyrir mér, hnén héldu!

Það er nokkuð írónískt hvernig hlaupið kom til. Það sem hvatti mig á stað var ekki síst baráttan við aukakílóin en það hjálpaði til að ég er orðinn svo vel græjaður. Mér áskotnaðist nefnilega nýlega svona Ipod í frímerkjastærð og þar sem ég hlusta nánast aldrei á tónlist úr svona spilastokkum nema þegar ég er að hreyfa mig þá ákvað ég að taka upp á því að fara út að hlaupa með gripinn (því ekki nenni ég að fá mér kort í ræktina meðan veðrið er eins og það er). Spilastokkurinn kom þannig til að ég hef frá unglingsárunum verið allmikið fyrir cola drykk nokkurn (hef nánast þambað hann eins og sumir þamba kaffi) og þar sem ég kaupi allmikið af honum þá hlaut að koma að því að ég ynni eitthvað í sumarleik þessa sama drykks. Það vill reyndar til að með hlaupinu fylgir það áheit að minnka nú aðeins þambið en ég vona topparnir þarna upp í Árbæ fái ekki fyrir hjartað þótt þeir missi góðan kúnna því ég hef jú verslað umtalsvert í gegnum árin af þessum görótta drykk. Ekki misskilja mig samt, ég er ekki hættur að drekka colað, bara búinn að minnka það (reyni að halda mig innan við 1 lítra á dag - úff!).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband