Ég heiti Brynjar, ég er nörd

Það eru liðin rúm tíu ár síðan ég spilaði roleplay síðast!

Ég veit í sjálfu sér ekki hvernig þetta byrjaði. Sennilega hef ég bara alltaf verið nörd, það voru í það minnsta ýmsar vísbendingar til staðar strax á grunnskólaaldri. Því til stuðnings má nefna að stærðfræði var alltaf uppáhalds fagið mitt (ég var iðulega komin margar vikur á undan áætlun í dæmakverunum) og ég fékk 10 í bókfærslu (ekki það að hún sé bara fyrir nörda en mér fannst hún meira að segja skemmtileg). Það varð svo endanlega ljóst í kringum 16 ára aldurinn að ég væri nörd.

Þetta byrjaði rólega. Við félagarnir vorum að hittast öðru hverju til að spila (þ.e. roleplay) en þetta þróaðist hratt og áður en maður vissi af var maður farinn að spila heilu næturnar allar helgar, bæði á föstudags- og laugardagskvöldum. Maður fór dálítið leynt með þetta, faldi fyrir skólafélögunum í menntó og þeim sem maður taldi að gætu ekki skilið þetta og svoleiðis. Ekki að ég hafi talið þetta vera eitthvað vandamál. Ég réð alveg við þetta taldi ég (þó einkunnirnar virtust eitthvað vera að dala).

Svo kom að því að þessu skeiði lauk. Félagarnir (nöfn þeirra verða ekki gefin upp að virðingu við þá og fjölskyldur þeirra) fóru hver í sína áttina að loknum framhaldsskóla (þeir sem á annað borð gengu í einn slíkan) og ef svo vildi til að við hittumst varð það að þegjandi samkomulagi að ekki var rætt um þetta vandræðalega tímabil þegar við vorum nördar!

En nú er öldin önnur. Nörd eru svöl (eða í það minnsta ekki alveg eins hallærisleg og fyrir nokkrum árum). Daglega gerist það að ný nörd koma út úr skápnum með fíkn sína í öðruvísi hluti. Krakkarnir sem vinna alþjóða stærðfræðikeppnir fyrir hönd skólans síns (já eða skákmót) verða vinsælasta liðið á einni nóttu og allir sem þekkja þau lýsa því stolt yfir. Svo ekki sé talað um að ein vinsælasta myndin á klakanum um þessar mundir er saga af nördum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnþór L. Arnarson

Vel á minnst! Er þetta ekki mynd sem við og fleiri, með sérstaka og ómissandi sameiginlega reynslu, ættum að skella okkur á? ( Nema þú sér nú þegar búinn að laumupokast á hana.

Arnþór L. Arnarson, 22.9.2007 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband