Galli á gjöf Njarðar?

Nú nýverið tilkynnti bílaumboðið Hekla að til stæði að hefja sölu á nýjum fjölskyldubíl sem gengur fyrir metani til jafns við bensín. Þetta eru vissulega fagnaðarfréttir þar sem hingað til hefur ekki verið mikið í boði af slíkum grænum fákum sem meðaljónin getur fest kaup á. Ég las þessa grein sem birtist í bílablaði Morgunblaðsins og kættist ekki síst vegna þess að bíllinn virtist vera á viðráðanlegu verði fyrir meðalfjölskyldu, ekkert dýrari en sambærilegir bílar sem ganga fyrir bensíni einvörðungu. Ekki skemmir heldur fyrir að metanið er mun ódýrara en bensín og framleitt innanlands (og eykur því ekki á viðskiptahallan). Eftir því sem ég las meira fóru þó að renna á mig tvær grímur. Ég var nánast farinn að gera mér í hugarlund að bruna niðrí Heklu og skipta gamla bensínfáknum upp í einn nýjan og hagkvæman þegar ég las nánar um bílinn. Um er að ræða svokallaðan fjölnota 5 til 7 manna fjölskyldubíl sem hentar mér kannski ekkert sérstaklega þar sem við erum enn bara þrjú í heimili en þrátt fyrir það gat ég þó hugsað mér að skoða þetta nánar. Þá áttaði ég mig á því að en sem komið er, er einungis hægt að kaupa metan á einni bensínstöð á landinu og þar sem bensíntankurinn er aðeins hugsaður til að koma sér á næstu stöð til að fylla metantankinn þá gæti maður ekki notað bílinn að neinu ráði nema innan höfuðborgarsvæðisins. Auk þess bý ég vestan megin við Elliðaárnar en téð stöð er staðsett austan megin (nánar tiltekið við Bíldshöfða) og þyrfti ég því að leggja krók á leið mína í hvert sinn sem mig skorti meira gas.

Hérna erum við því komin með vistvænan fjölskyldubíl, sniðinn að þörfum fjölskyldu búsetta í Árbæ eða Grafarvogi (jafnvel Mosfellsbæ ef þau gera sér reglulega ferð í höfuðborgina), með 3 börn eða fleiri, sem fer aldrei út á land.

Semsagt ekki besti kosturinn fyrir mig. Og því spyr ég bara: Hvenær er von á litlum borgarbíl (2-4 manna), sem gengur fyrir metani og er nógu ódýr til að vera samkeppnisfær við aðra samskonar bíla? Þegar þesskonar bíll kemur á markaðinn verð ég tilbúinn að skipta út vinnubílnum þrátt fyrir það að ég þyrfti að aka 1-2svar í mánuði austur yfir árnar til að fylla á tankinn. Svo búa líka bæði mamma og tengdó þeim megin og maður gæti bara slegið tvær flugur í einu, kíkt í heimsókn og fyllt á bílinn í sömu ferðinni (loksins komin góð og gild ástæða til að kíkja oftar í heimsókn).


Hlauptu Brynjar, hlauptu

Ég fór út að hlaupa um daginn í fyrsta skipti í... ja í fyrsta skipti (ef frá eru talin grunn- og menntaskólaárin þegar maður var neyddur til að hlaupa utandyra um einu sinni í viku). Er reyndar búinn að ætla mér lengi að drífa mig í skokkið en hef alltaf talið sjálfum mér trú um að mér þætti það leiðinlegt og að ég væri of slæmur í hnjánum (enda kominn á fertugsaldurinn). Ég hafði ekki að öllu leyti rétt fyrir mér, hnén héldu!

Það er nokkuð írónískt hvernig hlaupið kom til. Það sem hvatti mig á stað var ekki síst baráttan við aukakílóin en það hjálpaði til að ég er orðinn svo vel græjaður. Mér áskotnaðist nefnilega nýlega svona Ipod í frímerkjastærð og þar sem ég hlusta nánast aldrei á tónlist úr svona spilastokkum nema þegar ég er að hreyfa mig þá ákvað ég að taka upp á því að fara út að hlaupa með gripinn (því ekki nenni ég að fá mér kort í ræktina meðan veðrið er eins og það er). Spilastokkurinn kom þannig til að ég hef frá unglingsárunum verið allmikið fyrir cola drykk nokkurn (hef nánast þambað hann eins og sumir þamba kaffi) og þar sem ég kaupi allmikið af honum þá hlaut að koma að því að ég ynni eitthvað í sumarleik þessa sama drykks. Það vill reyndar til að með hlaupinu fylgir það áheit að minnka nú aðeins þambið en ég vona topparnir þarna upp í Árbæ fái ekki fyrir hjartað þótt þeir missi góðan kúnna því ég hef jú verslað umtalsvert í gegnum árin af þessum görótta drykk. Ekki misskilja mig samt, ég er ekki hættur að drekka colað, bara búinn að minnka það (reyni að halda mig innan við 1 lítra á dag - úff!).


Loksins, loksins

Halló heimur.

 Nú er maður loksins kominn á netið. Áralangar fortölur vina og kunningja hafa loksins fengið mann til að gefa undan. Bloggheimur hér kem ég.

Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega fljótur að tileinka mér nýjungar er varða internetið sem sést kannski best á því að það eru bara nokkrir mánuðir síðan ég fékk ADSL tengingu. Fram að þeim tíma hafði ég látið mér duga að notast við innhringimódem (56k). Ekki það að ég hafi ekki verið fullkomlega sáttur við þann háttinn (sumum vinum mínum til mikils ama) enda sá ég ekki mikla ástæðu til að vera með internetið heima hjá mér. Komst alveg af með að tengjast í vinnunni ef þess þurfti eða hjá einhverjum af mínum tæknivæddu vinum. Reyndar væri ég líklega en ekki kominn með ADSL ef það væri ekki fyrir það að sjónvarpsskilyrðin hjá mér eru svo slæm að ég var orðinn þreyttur á því að Skjár 1 og Sirkus endurspegluðu venjulega veðrið úti, þ.e. ef það snjóaði úti þá snjóaði inni og ef það var stormur þá fauk venjulega útsendingin út í hafsauga og ég þurfti að láta mér duga að horfa á fræðsluþætti á RÚV.

 En nú er maður semsagt orðinn vel tengdur og farinn að láta ljós sitt skína í bloggheimi. Ég á reyndar ekkert sérstaklega von á því að ég verði duglegur að pára hugsanir mínar niður á skjáinn. Þetta verður líklega nokkuð þétt til að byrja með en fjarar svo út á endanum (svona eins og hjá flestum). En hver veit kannski kem ég til með að fylgja eftir áhugamálunum hér á síðunni og nota hana til að koma skoðunum mínum á framfæri hvað þau varðar. Það mun tíminn leiða í ljós.

En semsagt, hér er ég (í bili a.m.k.).


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband