Galli á gjöf Njarðar?

Nú nýverið tilkynnti bílaumboðið Hekla að til stæði að hefja sölu á nýjum fjölskyldubíl sem gengur fyrir metani til jafns við bensín. Þetta eru vissulega fagnaðarfréttir þar sem hingað til hefur ekki verið mikið í boði af slíkum grænum fákum sem meðaljónin getur fest kaup á. Ég las þessa grein sem birtist í bílablaði Morgunblaðsins og kættist ekki síst vegna þess að bíllinn virtist vera á viðráðanlegu verði fyrir meðalfjölskyldu, ekkert dýrari en sambærilegir bílar sem ganga fyrir bensíni einvörðungu. Ekki skemmir heldur fyrir að metanið er mun ódýrara en bensín og framleitt innanlands (og eykur því ekki á viðskiptahallan). Eftir því sem ég las meira fóru þó að renna á mig tvær grímur. Ég var nánast farinn að gera mér í hugarlund að bruna niðrí Heklu og skipta gamla bensínfáknum upp í einn nýjan og hagkvæman þegar ég las nánar um bílinn. Um er að ræða svokallaðan fjölnota 5 til 7 manna fjölskyldubíl sem hentar mér kannski ekkert sérstaklega þar sem við erum enn bara þrjú í heimili en þrátt fyrir það gat ég þó hugsað mér að skoða þetta nánar. Þá áttaði ég mig á því að en sem komið er, er einungis hægt að kaupa metan á einni bensínstöð á landinu og þar sem bensíntankurinn er aðeins hugsaður til að koma sér á næstu stöð til að fylla metantankinn þá gæti maður ekki notað bílinn að neinu ráði nema innan höfuðborgarsvæðisins. Auk þess bý ég vestan megin við Elliðaárnar en téð stöð er staðsett austan megin (nánar tiltekið við Bíldshöfða) og þyrfti ég því að leggja krók á leið mína í hvert sinn sem mig skorti meira gas.

Hérna erum við því komin með vistvænan fjölskyldubíl, sniðinn að þörfum fjölskyldu búsetta í Árbæ eða Grafarvogi (jafnvel Mosfellsbæ ef þau gera sér reglulega ferð í höfuðborgina), með 3 börn eða fleiri, sem fer aldrei út á land.

Semsagt ekki besti kosturinn fyrir mig. Og því spyr ég bara: Hvenær er von á litlum borgarbíl (2-4 manna), sem gengur fyrir metani og er nógu ódýr til að vera samkeppnisfær við aðra samskonar bíla? Þegar þesskonar bíll kemur á markaðinn verð ég tilbúinn að skipta út vinnubílnum þrátt fyrir það að ég þyrfti að aka 1-2svar í mánuði austur yfir árnar til að fylla á tankinn. Svo búa líka bæði mamma og tengdó þeim megin og maður gæti bara slegið tvær flugur í einu, kíkt í heimsókn og fyllt á bílinn í sömu ferðinni (loksins komin góð og gild ástæða til að kíkja oftar í heimsókn).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnþór L. Arnarson

Já, ég held að þetta sé vandinn í hnotskurn. Ef ég man rétt var mikið um dýrðir þegar umhverfisráðherra ( ef ég man rétt ) klippti á borðann á þessari vistvænu kraftgasstöð. Þetta var ( að mig minnir ) á þeim tíma þegar talað var mest um vetni og hvernig Ísland yrði vetnisvætt ( fyrirmyndarsamfélag ).  Umræða sem gott sem varð að víkja fyrir hrópanda þagnarinnar þegar fram liðu stundir. 

Vandinn í hnotinni felst með öðrum orðum í því botnlausa gapi, sem er á milli orðsins og borðsins, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi.  

Græna bylgjan á Íslandi bylgjast í hringi.  Hún er eiginlega ekki alveg venjuleg bylgja.  Því hún snýst bara um sjálfa sig.  Sumir kalla hana bara 'spin' upp á útlensku, ég vil af þjóðræknislegum hofmóði kalla hana 'hringekju'.

Græna hringekjan fer því ekki áfram heldur snýst hring eftir hring og stjórmálamenn geta öruggir fengið sér snúning, í þeirri fullvissu að þeir fari ekki langt, heldur endi á sama stað sigri hrósandi í baðaðir flóðljósum og flössum undir lófataki og aðdáunarfullum augnatillitum.  Afar hentugt tæki í lýðræðissamfélagi eins og Íslandi. ( Sem minnir mig á söguna af gullfiskinum sem átti svo erfitt með að muna; en það er önnur saga. )

Þér ratast því satt orð á munn Brynjar og mættu aðrir RSS-eyrnastór (ég) leggja við hlustir. 

Arnþór L. Arnarson, 6.8.2007 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband