Er þá ekki komið að Gísla Marteini?

Flott mál. Kominn tími til! En nú hlýtur þá að vera komið að Gísla Marteini. 10,3 milljónir fyrir aðeins 1 framboð. Steinunn fékk að vísu 12,7 milljónir en það var fyrir 2 framboð. Snýst þetta kannski um kyn viðkomandi? Gísli Marteinn á að segja af sér og það strax!!!

Gísli fékk rúmum 2 milljónum meira en Steinunn fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og um 2svar sinnum meira heldur en Dagur B. og 3svar sinnum meira en Hanna Birna. Það er hreint og klárt hneyksli hvernig fjölmiðlar hafa tekið á þessu máli. Mbl.is gerir meira segja lítið úr þessu sbr. grein sem birtist í gær: ,,og í ljósi þess að styrkirnir eru ekki með þeim hæstu sem frambjóðendur þáðu og fyrirtækin styrktu vel flesta frambjóðendur". Styrkirnir hans voru sannarlega með þeim hæstu sem frambjóðendur þáðu. Enginn fékk meiri styrki fyrir borgarstjórnarkosningar og það voru ekki margir sem fengu hærri styrki ef Alþingiskosningarnar eru teknar með. Man reyndar ekki eftir öðrum en Steinunni og Guðlaugi Þór sem fengu hærri styrki (og ekki hefur farið mikið fyrir þeirri kröfu að Guðlaugur segi af sér). 

Ég lái Steinunni ekki að hafa sagt af sér og tel reyndar að það hafi verið það eina rétta í stöðunni en nú er kominn tími á alla hina. Guðlaugur Þór og Gísli Marteinn eru sannarlega þar á meðal og eiga báðir að segja af sér hið fyrsta og hætta afskiptum af stjórnmálum! Svo má ekki gleyma því að Gísli starfaði ekki einu sinni allt síðasta tímabil og tók sér ársleyfi til að mennta sig (gott mál sem slíkt) og ætlaði jafnframt að þiggja laun á sama tíma. Þetta er óforskammað og engan veginn ásættanlegt!

Það er kominn tími til að stjórnmálamenn innan Sjálfstæðisflokksins axli sína ábyrgð og segji af sér ef ástæða er til og þá er ekki nóg að taka tímabundið leyfi frá störfum eins og sumir hafa gert.

Ef ekki kemur til afsagna strax þá geri ég ráð fyrir að stutt verði í næstu byltingu. Almenningur er löngu orðinn þreyttur á því að þessir aðilar sitji áfram fyrir okkar pening og geri lítið úr öllu saman.

Lifi byltingin!


mbl.is Fékk 12,7 milljónir í styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögufölsun?

Óskaplega gerir miðillinn lítið úr styrkveitingum til Gísla. Veit ekki hvort það er gert af óheilindum en miðillinn ýjar a.m.k. að því að hér sé um smáa styrki að ræða sbr: „...í ljósi þess að styrkirnir eru ekki með þeim hæstu sem frambjóðendur þáðu ...". Maður veltir vöngum yfir því hvort áhrif eigenda miðilsins, sem tengjast að sögn flokki Gísla Marteins, hafi haft áhrif á þessa umfjöllun. Er hér um sögufölsun að ræða þar sem meira er gert úr þætti einstaklinga sem ekki tengjast Sjálfstæðisflokknum jafnvel þótt þeir hafi hlotið hærri og fleiri styrki?

Skv. upplýsingum á vef Ríkisendurskoðunar þáði Gísli alls 10.367.000 og þar af voru 8.116.000 frá lögaðilum. Semsagt 16.000 kr. meira frá lögaðilum heldur en Steinunn Valdís fékk og rúmum 2 milljónum meira í heildina en allir aðrir frambjóðendur í borgarstjórnakosningunum (þar á meðal Steinunn Valdís). Samt leyfir mbl.is sér að segja þetta vera smáa styrki! Nú man ég ekki hvernig umfjöllunin um Steinunni Valdísi var en hún var klárlega ekki jákvæð. Upphæðin sem rætt hefur verið um vegna Steinunnar er reyndar hærri enda er verið að taka saman styrki sem hún fékk vegna tvennra kosninga.

Í tengslum við þessa grein á mbl.is vil ég jafnframt vísa í ummæli sem höfð voru eftir Gísla Marteini á öðrum miðli á alnetinu: „Nei, nei. Þetta er ekki neitt neitt. Ég er þegar búinn að gefa upp helminginn af þessu og þetta eru svo litlar upphæðir hjá mér. Hæsti styrkurinn hjá mér er milljón." Þetta sýnir manni semsagt að Gísli er jafn veruleikafyrrtur og allmargir aðrir kollegar hans á pólitíska sviðinu. Hverju öðrum en veruleikafyrrtum einstaklingi dytti í hug að tala um 1 milljón sem litla upphæð. Það tæki láglaunafólk líklega mörg ár að safna þeirri upphæð upp jafnvel þótt engu væri eytt í óþarfa lúxus eins og bíóferðir, tannlækna, lyf og tómstundir svo eitthvað sé nefnt! Loks má nefna að eftir þessa litlu styrki sína sem drengurinn náði að nurla saman til þess að geta komist að í borgarstjórn þá var hann þotinn til útlanda þar sem hann ætlaði að vera í námi í 1 ár á launum!!! Minnir reyndar að hann hafi á endanum ekki þegið laun fyrir þennan tíma.

Það skal tekið fram að með þessum skrifum er ég alls ekki að verja Steinunni Valdísi enda er það skoðun mín að hún eigi tafarlaust að segja af sér ásamt fleirum.

Ein tilvitnun að lokum:
The word 'politics' is derived from the word 'poly', meaning 'many', and the word 'ticks', meaning 'blood sucking parasites'.
Larry Hardiman


mbl.is „Hefði átt að gera þetta fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hámark kaldhæðninar?

 

Ágætis punktar hjá kallinum. Fyndið samt að þessi maður af öllum skuli vera að tjá sig um þetta málefni. Hann var líklega einn helsti talsmaður Íslensku útrásarinnar sbr. viðtal í Íslandi í dag hér um árið (sbr. http://www.youtube.com/watch?v=AoD8umlAOFs) en talar núna um ábyrgðarlausa bankamenn og að ekki eigi að borga undir þá! Þetta er sami maðurinn og sagði í téðu viðtali að snilldin hafi verið að lífga við dautt fjármagn sem lá bara þarna hjá ríkinu (sem Sjálfstæðisflokkurinn afhenti svo sínum einkavinum) og veðsetja það til að búa til meira fjármagn (sem var þá líklega hægt að gefa fleiri einkavinum) og veðsetja það svo líka! Mér er spurn: Ef snilld fyrri ríkisstjórnar fólst í því að lífga við þetta fjármagn, hver ber þá ábyrgð á því að slátra því aftur? voru það ekki þessir sömu mektarmenn sem Hannes hefur mært svo mikið í gegnum tíðina. Menn sem eru meira og minna tengdir Sjálfstæðisflokknum? En batnandi manni er best að lifa. Hannes hefur klárlega snúið frá fyrri skoðun og ákveðið að snúa baki við þessum mönnum sem hann hafði svo mikið álit á fyrir aðeins 3 árum síðan. 

Er þetta ekki hámark kaldhæðninar?


mbl.is Sé kæruleysi verðlaunað fyllist allt af kærulausu fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað leggur Sigurður Kári til?

Það er nokkuð ljóst að það verður ekki hægt að losna undan þeim skuldaklafa sem hvílir á landinu án þess að grípa til einhverja aðgerða. Slíkar aðgerðir verða alltaf þungar og munu koma hart niður á mjög mörgum. Sigurður Kári virðist hræðast það mest að ný ríkisstjórn muni hækka skatta á almenning til þess að hægt verði að standa við skuldbindingar en hvað leggur hann sjálfur til. Sjálfstæðisfólk hefur lítið gert undanfarnar vikur til þess að koma með lausnir og hefur helst eytt kröftum sínum í að gagnrýna allt hægri vinstri (aðallega vinstri) sem rætt er á alþingi, já eða standa í ræðustól og rífast um hver kom fyrstur með hugmynd af einhverju frumvarpi. Ekkert hefur hinsvegar heyrst frá þeim varðandi raunhæfar lausnir. Sigurður Kári ætti því kannski að eyða tíma sínum frekar í að vinna að lausn vandans frekar en að setja út á hugsanlegar skattahækkanir.

Hvað skattahækkanir varðar væri reyndar áhugavert að heyra hvað Sjálfstæðisflokkurinn kallar þær aðgerðir sem hann var þegar byrjaður á sem laut að niðurskurði hér og þar. Það er kannski ekki beinlínis skattahækkun að setja á komugjöld á sjúkrahús eða skerða þjónustustig á ýmsum sviðum en það kemur engu að síður niður á buddum margra landsmanna og þá helst þeim sem síst skildi!

Það er ljóst að við íslendingar stöndum frammi fyrir því að kjör okkar munu skerðast á næstunni til þess að hægt verði að standa við gerðar skuldbindingar (ósanngjarnar jafnt sem sanngjarnar) og ef ekki kemur raunhæf lausn frá Sjálfstæðisflokknum um aðgerðir þá verður bara að segja eins og er að skattahækkun á línuna er líklega sanngjarnasta leiðin til þess að þessi baggi falli jafnt á alla en ekki bara á þá sem minnst mega sín.

Ef hinsvegar Sigurður Kári hefur eitthvað betra til málana að leggja þá vona ég að hann geri það sem fyrst frekar en að eyða tíma sínum og kröftum í að gagnrýna aðgerðir annarra.


mbl.is Þýðir ekki að klína sök á Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað fáum við í staðinn?

Hugmynd ráðandi manna um að framlengja kjarasamninga á líklega að vera til þess að auka á stöðugleika í fjármálageiranum. Gott mál út af fyrir sig.

 Ég spyr á móti hvað ríkisstjórnin ætlar að gera fyrir okkur í staðinn.

 Persónulega er ég ekki alfarið á móti því að samningar verði framlengdir en þá verður ríkisstjórnin líka að endurskoða fyrirhugaðar hækkanir á ýmsum liðum sem liggja fyrir um áramótin. Jafnframt verða fyrirtækin í landinu að taka á sig stærri hluta af fyrirhuguðum hækkunum á vörum og þjónustu gegn því að þurfa ekki að hækka laun starfsmanna aftur í vor!!!


mbl.is Æskilegt að framlengja kjarasamninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar keypti sonur Davíðs ölið?

Nýleg skipan héraðsdómara Norðurlands eystra og Austurlands hefur valdið talsverðu fjaðrafoki og skyldi engan undra. Ég hef reyndar enga ástæðu til að efast um hæfni nýráðins dómara til að sinna þessu starfi enda þekki ég ekki til fyrri starfa hans né hvers megnugur hann er á því sviði sem hann tekur nú að starfa við. Það verður reyndar að segja eins og er að ef hann væri ekki sonur föður síns þá hefði líklega ekki verið gert eins mikið mál úr ráðningunni. Þar er einnig eins líklegt að ekki hefði verið gert eins mikið úr þessu ef það væri ekki fyrir það að þetta er aðeins nýlegasta dæmið um skipan ráðherra sjálfstæðisflokksins í opinbera stöðu á undanförnum árum þar sem nánast hefur verið ljóst fyrirfram hver hnossið hneppti. Á undanförnum árum hafa nefnilega þó nokkrir einstaklingar sem tengjast flokknum með vina eða fjölskylduböndum verið ráðnir frekar en aðrir. Þá hefur sérstaklega verið áberandi að einstaklingar tengdir fyrrverandi forsætisráðherra (og er ég þá ekki að tala um Hr. Ásgrímsson) hafi fengið þær stöður sem þeir hafa sóst eftir (þar á meðal góðvinur, frændi og nú síðast sonur).

En eins og ég segi þá hef ég enga ástæðu til að efast um hæfni Davíðssonar né heldur annarra einstaklinga sem ráðnir hafa verið við svipaðar kringumstæður (hvort sem þeir hafa starfað í ritdómnefnd eður ei). Ég tel hinsvegar ýmislegt vera athugavert við núverandi kerfi og spurning hvort ekki þurfi að leita annarra lausna í framtíðinni. Lausnir sem hægt væri að skoða væru t.d. að kjósa embættismenn samhliða Alþingis- eða sveitastjórnarkosningum eða láta Alþingi hreinlega kjósa þessa menn.

En hvað sem þessu líður þá má gera ráð fyrir að sonur Davíðs kaupi ölið norðan heiða næstu árin.


mbl.is Segir rangfærslur í yfirlýsingu Árna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt fyrr hefði verið

Þá er það loksins orðið endanlegt. Kimi er og verður heimsmeistari í formúlu 1 2007 og á hann það sannarlega vel skilið af öllum öðrum ólöstuðum. Nú ættu allir hlutaðeigandi að geta snúið sér að því sem skiptir máli, þ.e. undirbúningi fyrir næsta tímabil. Ég held að McLaren ætti nú bara að einbeita sér að því að gleyma einu mesta niðurlægingartímabili í sögu liðsins, tímabili sem þó var eitt það skemmtilegasta í formúlunni í fjölda ára.

 


mbl.is Áfrýjun McLaren nær ekki fram að ganga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alonso hittir naglan á höfuðið

Ég er aldrei þessu vant sammála Alonso. Reyndar verður að viðurkennast að ég er frekar litaður hvað þetta varðar enda rauður í gegn! En engu að síður þá er ég á því líkt og hann að það væri ekki sportinu til framdráttar ef Hamilton hlyti titilinn vegna afskipta dómstóla. Alonso hefur líka sagt að hann myndi ekki sjálfur sætta sig við að vinna titilinn á þennan hátt en lét þó fylgja að hann vissi ekki hverjar skoðunar Hamilton væri í þessu máli en gerði þó ráð fyrir að Hamilton teldi sig eiga titilinn skilið og yrði líklega hæstánægður ef til þess kæmi að úrslitunum yrði breytt. Það er svo spurning hvort Alonso myndi vera sömu skoðunar ef breytt úrslit myndu gera hann sjálfan að heimsmeistara.

McLaren má líka vara sig á að fara ekki offari í þessu máli enda munaði ekki miklu fyrr á árinu að ökumenn liðsins yrðu sviptir öllum stigum um leið og liðið og eru reyndar margir á því að svo hefði átt að vera. En líkt og oft er gert í sakamálum þá var samið við þá um sakaruppgjöf gegn því að þeir skírðu frá sinni hlið mála gagnvart njósnamálinu. Hamilton getur svo engu að síður gengið sáttur frá nýafloknu tímabili sem öflugasti nýliði formúlunnar frá upphafi og verður það ekki tekið frá honum.

Annars er nú á enda eitt mest spennandi tímabil í formúlunni sem ég hef upplifað og get ég ekki annað sagt en að ég er hæstánægður með það þótt minn maður hafi helst úr lestinni þegar nokkur mót voru en eftir en ég hef fulla trú á því að Massa komi sterkur til leiks á næsta ári og veiti Kimi öfluga samkeppni í titilvörn hans (þ.e. ef hann fær þá að halda titlinum).


mbl.is Alonso andvígur áfrýjun McLaren
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðandi tveggja barna faðir

Við erum ólétt! Þetta er svo sem ekkert nýskeð enda krílið væntanlegt í janúar. Meðgangan hefur bara gengið nokkuð vel. Aukakílóin hafa reyndar eitthvað aukist en ógleðin hefur lítt látið sjá sig. En nóg um mig. Konan kvartar svo sem ekki yfir miklu heldur en hefur þó eitthvað fundið fyrir grindarverkjum. Nú styttist tíminn svo óðum og er nú farið að sjást meira á henni en mér (en ég hef reyndar verið nokkuð duglegur við að æfa mig og ekki laust við að endalausar magaæfingar séu loksins farnar að skila sér).

Þetta er annars yndislegur tími og við reynum að njóta hans til hins ýtrasta, enda gefst ekki mikill tími til afslöppunar þegar krílið er komið í heiminn og byrjar að halda vöku fyrir okkur heilu og hálfu sólarhringana. En þrátt fyrir langar andvökunætur er þetta vel þess virði. Svo skemmir ekki fyrir hvað verðandi stóra systir er spennt. Hún lýsir því stöðugt yfir að hún sé að verða stóra systir og að hún eigi systir í maganum á mömmu. Ekki að það sé komið á hreint um hvort kynið sé að ræða (í það minnsta verður það ekki gefið upp hér) heldur vill hún hreinlega ekki eignast bróður á þessu stigi og er því svona ákveðin í vissu sinni um að lítil systir leynist í maganum á mömmu. Hún hefur þó ekki útilokað það að eignast bróður seinna meir og segist vera tilbúin til þess þegar hún verður stór eins og ég (efast reyndar um að ég sé tilbúinn að verða við þeirri ósk þegar þar að kemur). Ég vona bara að hún verði ekki fyrir miklum vonbrigðum ef litla systir reynist vera lítill bróðir þegar þar að kemur en það kemur í ljós upp úr áramótum.


Ég heiti Brynjar, ég er nörd

Það eru liðin rúm tíu ár síðan ég spilaði roleplay síðast!

Ég veit í sjálfu sér ekki hvernig þetta byrjaði. Sennilega hef ég bara alltaf verið nörd, það voru í það minnsta ýmsar vísbendingar til staðar strax á grunnskólaaldri. Því til stuðnings má nefna að stærðfræði var alltaf uppáhalds fagið mitt (ég var iðulega komin margar vikur á undan áætlun í dæmakverunum) og ég fékk 10 í bókfærslu (ekki það að hún sé bara fyrir nörda en mér fannst hún meira að segja skemmtileg). Það varð svo endanlega ljóst í kringum 16 ára aldurinn að ég væri nörd.

Þetta byrjaði rólega. Við félagarnir vorum að hittast öðru hverju til að spila (þ.e. roleplay) en þetta þróaðist hratt og áður en maður vissi af var maður farinn að spila heilu næturnar allar helgar, bæði á föstudags- og laugardagskvöldum. Maður fór dálítið leynt með þetta, faldi fyrir skólafélögunum í menntó og þeim sem maður taldi að gætu ekki skilið þetta og svoleiðis. Ekki að ég hafi talið þetta vera eitthvað vandamál. Ég réð alveg við þetta taldi ég (þó einkunnirnar virtust eitthvað vera að dala).

Svo kom að því að þessu skeiði lauk. Félagarnir (nöfn þeirra verða ekki gefin upp að virðingu við þá og fjölskyldur þeirra) fóru hver í sína áttina að loknum framhaldsskóla (þeir sem á annað borð gengu í einn slíkan) og ef svo vildi til að við hittumst varð það að þegjandi samkomulagi að ekki var rætt um þetta vandræðalega tímabil þegar við vorum nördar!

En nú er öldin önnur. Nörd eru svöl (eða í það minnsta ekki alveg eins hallærisleg og fyrir nokkrum árum). Daglega gerist það að ný nörd koma út úr skápnum með fíkn sína í öðruvísi hluti. Krakkarnir sem vinna alþjóða stærðfræðikeppnir fyrir hönd skólans síns (já eða skákmót) verða vinsælasta liðið á einni nóttu og allir sem þekkja þau lýsa því stolt yfir. Svo ekki sé talað um að ein vinsælasta myndin á klakanum um þessar mundir er saga af nördum!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband